Niðurstöður í hönnunarsamkeppni um Laugaveg

Niðurstöður í hönnunarsamkeppni um Laugaveg og Óðinstorg voru kynntar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Hugmyndirnar sýna endurgerð tveggja svæða, annars vegar á Laugavegi milli Snorrabrautar og Skólavörðustígs og hins vegar Óðinstorgi. Viðfangsefni samkeppninnar var að hanna svæði fyrir almenning sem endurspeglaði bæði góðan borgarbrag og yrði vettvangur fjölbreytts mannlífs, þar sem aukin áhersla væri lögð á gangandi og hjólandi umferð auk góðs aðgengis fyrir alla.

Höfundar vinningstillögu um endurgerð Laugavegar eru Birgir Teitsson, Hulda Sigmarsdóttir og Sara Axelsdóttir, arkitektar hjá Arkís arkitektum. Með þeim í teymi eru Hermann Ólafsson, landslangsarkitekt hjá Landhönnun, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, lýsingarhönnuður, Guðjón Örn Sigurðsson, lýsingahönnuður, Kristveig Sigurðardóttir, skipulagsverkfræðingur og Ramon Contini hjá Verkís og Harpa Cilia Ingólfsdóttir, ferlihönnuður og byggingarfræðingur hjá Aðgengi.

Verslun, þjónusta og mannlíf á Laugavegi

„Tillagan sýnir góða og sannfærandi útfærslu, þar sem efnisval er gott og hugmyndir vel útfærðar," segir í dómnefndaráliti um vinningstillögu að endurgerð Laugavegar frá Skólavörðustíg að Snorrabraut. „Leiðarlínan er hugmynd sem virðist virka vel og tengir sögu svæðisins inn í hönnunina. Lýsing í götu og rýmum er vel leyst sem og við götugögn. Götutorg eru áhugaverð og sama má segja um lausn á bílastæðum fyrir mismunandi árstíma. Tillögur um götugögn og gróðurbeð virka sannfærandi. Hugmyndir um yfirborð eru með góðu jafnvægi en vinna mætti meira með efnisval. Athuga þarf betur flæði gangandi umferðar og bíla. Tillagan er vel unnin, sýnir ágætt heildaryfirbragð Laugavegar og góðar úrlausnir."

Endurbættur Laugavegur á að laða að fólk og styðja betur við verslun og þjónustu sem veitt eru í götunni, auk þess að efla mannlífið sem hefur verið að aukast á undanförnum árum.

Í samantekt um hönnunarsamkeppnina segir að eftirfarandi markmið skyldi hafa í huga við úrlausnir á Laugavegi:

  • Styðja við verslunarrekstur, veitinga- og viðburðahald við Laugaveginn.
  • Efla þungamiðjur við Laugaveginn, bæði með því að skapa nýjar og efla þær sem til staðar eru en eru kannski óvirkar í dag.
  • Fjölga uppbrotum við Laugaveginn; m.a. með því að virkja og efla starfsemi sem gætu átt sér stað í þak- og bakgörðum við Laugaveginn.
  • Að hönnunin myndi umgjörð um lifandi og aðlaðandi staði sem ýti undir aukin og gagnkvæm samskipti fólks. Umhverfisleg gæði verði hámörkuð og skapað verði gott aðgengi fyrir alla.
  • Styðja ímynd Laugavegarins sem eins elsta verslunarkjarna Reykjavíkur svo að tíðarandi húsa og götu falli sem best saman. Huga að merkingum og reglum um skilti og auglýsingabúnað með það að leiðarljósi að skapa ákveðna ró í götunni en ekki ,,Vegas" stemningu á Laugaveginum. Búnaður, götugögn og annað sem hönnuðir kjósa að velja sé í anda Reykjavíkur eða norrænna borga.

Skoða vinningstillögu

Skoða greinagerð með öllum innsendum tillögum

Umhverfis- og skipulagssvið
Reykjavíkurborgar
Sími: 411 11 11

Borgartúni 12 - 14
105 Reykjavík