Niðurstöður í hönnunarsamkeppni um Óðinstorg

Um vinningstillögu að endurgerð Óðinstorgs segir í dómnefndaráliti að hún tengi garð- og leiksvæði vel við gróðursælt torg og virki vel sem hverfistorg fyrir íbúa og aðra gesti.  Tillagan sýnir góða lausn á fjölbreyttu hverfistorgi. „Góð blanda er af gróðri, efnisval vandað og lýsing vel útfærð. Tillagan vinnur með hæðarmismun torgsins í stöllum sem ganga þvert á torgið og fyrir vikið virkar torgið stærra og fjölbreyttara. Samhengið á torginu mætti vera meira og bæta má aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Góð aðstaða virðist vera fyrir hendi fyrir veitinga- og markaðsrekstur á torginu. Um er að ræða fjölnota torg án þess að það verði að tómu rými. Efnisval er margþætt og áhugavert en gróðurútfærslur mætti vinna betur, þar sem trjáflóra mætti vera ríkulegri. Lýsing er góð og ákaflega mild sem gefur torginu vinalegan blæ. Umferðarflæði gatna er ágætlega leyst,“ segir í umsögn dómnefndar.

Helsta viðfangsefni hönnunarsamkeppninnar fyrir Óðinstorg var að stuðla að breyttri notkun á torginu frá því sem nú er, en svæðið er að mestu lagt undir bílastæði. Einnig að horfa á lausnir fyrir Óðinsgötu og Týsgötu sem tengir torgið við Skólavörðustíg á sem bestan hátt. Í innsendum tillögum mátti samkvæmt keppnisskilmmálum horfa framhjá ákvæðum gildandi deiliskipulags hvað varðar torg og göturými.

Í forsendum hönnunarsamkeppninnar var lagt upp með eftirfarandi markmið:

  • Að efla gæði umhverfisins á allan hátt og að hönnunin endurspegli góðan borgarbrag.
  • Að torgið verði vettvangur fjölbreytts mannlífs.
  • Að torgið verði stolt hverfisins og frábært dvalarsvæði fyrir íbúa.
  • Að torgið styðji við veitinga- og viðburðahald.
  • Áhersla er lögð á gott aðgengi fyrir alla

Dómnefnd og samráð

Í dómnefnd áttu sæti:

  • Ólafur Bjarnason, formaður, Reykjavíkurborg.
  • Hildur Gunnlaugsdóttir, Reykjavíkurborg.
  • Oddur Hermannsson, fulltrúi FÍLA.
  • Gunnar Sigurðsson, fulltrúi AÍ.
  • Tinna Brá Baldvinsdóttir, fulltrúi Miðborgarinnar okkar.

Ritari dómnefndar var Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt og trúnaðarmaður keppninnar var Ólafur Melsted, landslagsarkitekt.

Undirbúningur og aðdragandi aðhönnunarsamkeppni þessara tveggja svæða hefur verið nokkur. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti í febrúar 2013 að vinna forsögn um endurbætur á Laugavegi, kaflann frá Snorrabraut að Skólavörðustíg þar sem gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og götulýsingu í áföngum. Í kjölfarið var skipaður vinnuhópur um verkefnið og lagði hann fram hönnunarforsögn í umhverfis- og skipulagsráði, sem jafnframt var kynnt fyrir íbúum, fasteignaeigendum og fyrirtækjum við Laugaveg á umræddum kafla. Ábendingar sem fram komu við forsögnina voru hluti af keppnisgögnum.

Endurgerð Óðinstorgs hefur einnig verið í deiglunni um skeið. Samkeppni um útfærslu torgsins hafði áður verið samþykkt haustið 2008 í þáverandi umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur og var þá hluti af hugmyndasamkeppni um Óðinstorg, Baldurstorg og Freyjutorg. Í kjölfarið hófst vinna með biðsvæðaverkefni og ýmsar tilraunainnsetningar á Óðinstorgi og Baldurstorgi sem hefur nú m.a. leitt til hönnunarsamkeppni Óðinstorgs.

 

Skoða vinningstillögu

Skoða greinagerð með öllum innsendum tillögum

Umhverfis- og skipulagssvið
Reykjavíkurborgar
Sími: 411 11 11

Borgartúni 12 - 14
105 Reykjavík