Göngu- og hjólabrýr

Verðlaun voru afhent þann 3. maí 2012 í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa og hjólaleið um norðurenda Geirsnefs. Höfundar vinningstillögunnar voru frá Teiknistofunni Tröð, þau Hans-Olav Andersen og Sigríður Magnúsdóttir, arkitektar. „Einfalt en jafnframt frumlegt og djarft form einkennir tillöguna," segir í áliti dómnefndar um verðlaunatillöguna. „Styrkur tillögunnar er tvímælalaust einfalt og sterkt burðarform, sem felur í sér nýstárlega nálgun viðfangsefnisins." Dómnefndin reiknar með að mannvirkið geti orðið ákveðið kennileiti og vakið áhuga fólks til útivistar á svæðinu. 

Skoða verðlaunatillögu (PDF)
Sjá nánar um framvindu verkefnis hér

Tilgangur samkeppninnar var að fá fram frjóar og áhugaverðar, en jafnframt raunhæfar hugmyndir um þessa nýju hjólaleið sem tengjast mun neti hjólastíga í borginni.  Í keppnislýsingu var gert ráð fyrir að samið verði við höfunda fyrstu verðlaunatillögu um áframhaldandi hönnun á verkefninu til útboðs.  Hún mun stytta leiðina milli Grafarvogs og miðborgar umtalsvert eða um  0,7 km.  Gert er ráð fyrir aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með það í huga að stuðla að bættu umferðaröryggi og gera leiðina greiðari. Umferð hjólandi og gangandi yfir Elliðaár er mikil og má gera ráð fyrir að hún aukist með tilkomu nýju leiðarinnar. Verkefnið er kynnt í Framkvæmdasjá: Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa

Góð þátttaka var í samkeppninni, en alls bárust 16 tillögur sem teknar voru til umfjöllunar af dómnefnd sem skipuð var fulltrúum Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar, Verkfræðingafélagi Íslands (VFÍ) og Arkitektafélagi Íslands (AÍ).  Dómnefndin gerði skilmerkilega grein fyrir starfi sínu í samantekt um allar innkomnar tillögur og sérstaklega verðlaunatillögurnar þrjár, sem metnar voru á seinna þrepi keppninnar. Í keppnislýsingu var fyrirfram ákveðið vægi þriggja þátta: Fagurfræði/útlit 35%, tæknileg hönnun 35% og kostnaður 30%. 

Umhverfis- og skipulagssvið
Reykjavíkurborgar
Sími: 411 11 11

Borgartúni 12 - 14
105 Reykjavík