Skemmtilegri Öskjuhlíð
Á fundi Skipulagsráðs Reykjavíkur þann 23. maí 2012 var samþykkt að halda hönnunarsamkeppni meðal almennings um nýtingu Öskjuhlíðarinnar. Hugmyndirnar gátu snúið að nýtingu eða breytingum, verið tillögur um varðveislu, starfsemi, uppbyggingu eða hvaðeina sem talið er að bætt geti svæðið. Ekki var gert ráð fyrir að þátttakendur þyrftu að setja fram heildarsýn fyrir alla Öskjuhlíðina, frekar að tillögur væru lausnir fyrir afmörkuð svæði eða almennar hugmyndir um nýtingu.
Með samkeppninni var verið að leita eftir hugmyndum um hvernig efla mætti mannlíf og styrkja útivist á svæðinu ásamt hugmyndum um almenna nýtingu Öskjuhlíðarinnar. Vonast var til þess að niðurstöður úr hugmyndasamkeppninni verði mikilvægt innlegg fyrir fagsamkeppni um heildarskipulag Öskjuhlíðarsvæðisins. Leyfilegt var að sýna hugmyndir í ýmsu formi, s.s. með ýmisskonar teikningum í ótilgreindum mælikvarða, í texta eða á annan hátt sem þátttakendur völdu. Allir höfðu rétt til þátttöku í samkeppninni að undanskildum dómnefnd og verkefnisstjóra sem jafnframt var trúnaðarmaður og ritari dómnefndar.
Í samkeppnina bárust tillögur frá 58 aðilum og voru margar þeirra mjög fjölbreyttar og frjóar. Dómnefnd veitti 10 tillögum viðurkenningu. Greina mátti samhug meðal langflestra þeirra er sendu inn tillögur á þann veg að ekki sé þörf á gagngerri umbyltingu á Öskjuhlíð heldur frekar að gera eigi svæðið fjölbreyttara, þörf sé á að efla útivistarmöguleika Öskjuhlíðarinnar og að stykja svæðið sem fræðslu og safnasvæði. Þessi niðurstaða veitti góða leiðsögn fyrir forsögn að fyrirhugaðri fagsamkeppni fyrir rammaskipulag.
Skoða tillögur 1-3.sæti (PDF)
Skoða samantekt allra 58 tillagana (PDF)